Fyrsta viðvörunin tekur gildi klukkan þrjú í nótt á miðhálendinu. Er varað við sunnan og suðvestan stormi eða roki, 18-28 metrum á sekúndu. Búast má við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 metrum á sekúndu, auk sandfoks.
Klukkan fimm í nótt bætast við sams konar viðvaranir á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra. Þar er varað við sunnan og suðvestan roki eða stormi, allt að 15-23 metrum á sekúndu. Klukkan sjö um morgunin bætist Norðurland eystra við þar sem varað er við sunnan og síðan suðvestan 15-25 metrum á sekúndu, hvassast vestantil á svæðinu.

Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll og á heiðum, staðbundið yfir 30 m/s, sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Viðvörunin fyrir Strandir og Norðurland vestra dettur úr gildi klukkan 18 annað kvöld, klukkan 20 fyrir Vestfirði en viðvaranirnar fyrir miðhálendið og Norðurland eystra detta úr gildi á miðnætti.