Almannavarnir biðla til vegfarenda að vera ekki á ferðinni að óþörfu á því svæði þar sem veðrið er verst. Búist er við því að veðrið muni hafa áhrif á samgöngur auk þess sem líkur á foktjóni eru verulegar.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að ekki sé hægt að útiloka að krapaflóð falli aftur á Patreksfirði líkt og gerðist í síðustu viku.
Almannavarnir funda
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mun koma saman klukkan ellefu á samráðsfundi þar sem farið verður yfir stöðuna og viðbragð á þeim svæðum þar sem veðurspá er slæm. Í tilkynningunni segir að samkvæmt spá Veðurstofu Íslands sé von á sunnan stormi og miklu roki. Búast megi við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum.