Þá tökum við stöðuna á þinginu en þar var frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum samþykkt að lokinni annarri umræðu eftir ítrekað málþóf. Mál sem einkenndist af miklum tilfinningahita og hurðaskellum. Heimir Már fylgdist með þessu og verður í beinni frá Alþingi.
Við fjöllum einnig um kjaramálin og meint verkfallsbrot. Deilan harðnar með hverjum deginum og tekur á sig alls kyns myndir.
Við segjum einnig frá ótrúlegri sögu ungrar konu sem slasaðist lífshættulega í sprengingu í verksmiðju á Grenivík í fyrra. Hún gekkst undir læknismeðferð í Noregi og hefur náð undraverðum bata.
Svo verðum við í beinni frá Hafnarfirði en þar eru áform um stærsta kvikmyndaver landsins. Við ræðum þau mál við bæjarstjórann. Og þá er ýmislegt annað til umfjöllunar í fréttatímanum; til dæmis íslenskt hvalkjöt í Japan og framadagar í Háskólanum í Reykjavík, þar sem fréttamaður okkar skutlaði Íslendingum til Tenerife.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.