Þá verðum við í beinni frá Alþingi þar sem fram fór sérstök umræða um verðbólgu og stýrivaxtahækkanir. Þingmaður stjórnarandstöðu gefur lítið fyrir þá þjóðarsátt gegn verðbólgu sem seðlabankastjóri og fjármálaráðherra hafa velt upp.
Svo er það mál málanna: ritdeilur Haralds Þorleifssonar og Elons Musk, sem skekið hafa heimsbyggðina. Deilurnar minna einna helst á skákeinvígi Fischers og Spaskís að sögn ráðgjafa sem segir Harald hafa unnið næstríkasta mann heims með einum fingri í gær.
Við sýnum einnig svipmyndir frá alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem ber upp í dag og verðum í beinni frá innflutningspartíi Stígamóta. Samtökin halda ekki aðeins upp á afmæli sitt í dag heldur fagna nýju húsnæði og kveðja fráfarandi talskonu sína til margra ára.
Loks kíkjum við á stofnfund Kvæðabarnafjelagsins sem fram fór í dag. Það eru nemendur á Laufásborg sem fara fyrir félaginu en þeir eru með einhverjum undraverðum hætti orðnir sjóaðri en margur fullorðinn í fornlegum rímnakveðskap.