Skoðun

Þú getur hjálpað barni að eignast hjól

Linda Hrönn Þórisdóttir skrifar

Nú er Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi hafin í tólfta sinn. Viðtökurnar hafa verið góðar og mikill fjöldi hjóla hefur safnast á móttökustöðvum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu. Hjólin eru lagfærð af sjálfboðaliðum og þeim svo úthlutað til barna og ungmenna sem að öðrum kosti hafa ekki tök á því að eignast hjól. Eins og gera má ráð fyrir eru hjólin í misgóðu ástandi og meðan það dugar að bæta lofti í dekkin á sumum hjólum þá þarfnast önnur meiri lagfæringar. Í gegnum árin hefur þátttaka sjálfboðaliða í hjólaviðgerðum verið mikilvægur liður í því að geta veitt öllum þeim börnum og ungmennum hjól sem á þeim þurfa að halda en á hverju ári eru þau um 300 talsins. Eins og fram kemur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn sama rétt og þeim skal ekki mismunað á neinn hátt. Auk þess hafa þau rétt á lífsafkomu sem tryggir að líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska sé náð. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna tengjast líkt og Barnasáttmálinn markmiðum Hjólasöfnunarinnar en þar er kveðið meðal annars á um enga fátækt, aukinn jöfnuð, sjálfbæra orku og heilsu og vellíðan. Það er því ljóst að með Hjólasöfnuninni er komið til móts við mörg þau réttindi sem börn og ungmenni eiga.

Allir geta lagt sitt af mörkum í Hjólasöfnuninni. Ekki er nauðsynlegt að hafa mikla kunnáttu í hjólaviðgerðum til að taka þátt því sérfræðingar frá Reiðhjólabændum leiðbeina þeim sem bjóða fram krafta sína. Reiðhjólaklúbbar, fyrirtæki og félög hafa í gegnum árin tekið höndum saman og gert við hjól og hefur sá stuðningur verið ómetanlegur fyrir börnin. Frá upphafi hafa margir sjálfboðaliðar stuðlað að því að samtals hafa um 3.500 börn fengið tækifæri til að hjóla um með jafnöldrum sínum. Þannig er stuðlað að réttindum þeirra til þátttöku í tómstundum, leikjum og skemmtunum eins og fram kemur í Barnasáttmálanum.

Höfundur er leiðtogi innlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×