Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að ábúendur á bænum hafi þegar losað sig við öll dýr en ekki kemur fram hvenær það var gert.
Beiðnin til lögreglunnar snýr að því að meina ábúendum á bænum að halda dýr í framtíðinni. MAST hefur þegar sett á slíkt bann, sem gildir tímabundið þar til dómur hefur fallið vegna áðurnefndrar kröfu til lögreglu.
Hafi aðili gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögum þessum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim má svipta hann með dómi heimild til að hafa dýr í umsjá sinni, versla með þau eða sýsla með þau með öðrum hætti.
Sama gildir ef ljóst þykir að aðili hafi ekki getu til að annast dýr, sbr. 10. gr. Heimildarsvipting getur lotið að dýrum almennt eða einstökum tegundum og staðið tiltekið tímabil eða ævilangt. Ákæruvaldið getur haft uppi kröfu um heimildarsviptingu í sakamáli hvort sem krafist er refsingar á hendur sakborningi eða ekki. Sá sem sviptur er heimild samkvæmt þessari málsgrein og skeytir ekki dómi um heimildarsviptingu skal sæta sektum.