Yfirmenn Fjármálaeftirlitsins og Bankasýslunnar sátu fyrir svörum þingmanna í efnahags- og viðskiptanefnd á löngum fundi í dag, þar sem forstjóri Bankasýslunnar sagði útboð á tæplega fjórðungshlut í Íslandsbanka í fyrra hafa verið það best heppnaða í Evrópu. Við heyrum í honum og fleirum í fréttatímanum.
Ósk móður einhverfrar stúlku frá Venesúela um hæli fyrir sig og dótturina hefur verið hafnað. Hún segir ástandið í heimalandinu skelfilegt þar sem lágmarkslaun væru fjórar krónur á tímann.
Forstjóri Landsvirkjunar gagnrýnir að virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar hafi verið fellt úr gildi og framkvæmdum þannig slegið á frest. Það ætti að vera einfalt mál að fá nýtt leyfi gefið út.
Við skoðum dularfullt listaverk sem selt var á margfalt hærra verði á uppboði en búist var við og kíkjum á sex til tólf ára krakka í Hafnarfirði sem hópuðust á árlega dorgkeppni í dag.
Þetta og fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.