Óhætt er að segja að Bjössi sé atvinnumaður í faginu en hann hefur leitt brekkusönginn fyrir utan skemmtistaðinn Spot í Kópavogi síðastliðin þrettán ár við góðar undirtektir.
„Fyrsta árið mættu um tuttugu manns sem hefur síðan haldist í kringum tvöþúsund síðastliðin ár,“ segir Bjössi.
Skemmtistaðnum Spot var lokað í fyrrahaust. Bjössi stefndi á Herjólfsdal í Vestmannaeyjum í ár en svo var búið að skipuleggja skemmtun á Flúðum. Hann ætlar að búa til stemmningu á Flúðum í anda Herjólfsdals.
„Stemmningin á sunnudagskvöldinu í Dalnum er hápunktur helgarinnar,“ segir Bjössi sem ætlar að gera sitt besta að framlengja hana á Flúðir um helgina.
Aðspurður segir hann lagavalið byggjast á sígildum slögurum sem gestir hátíðarinnar ættu að geta tekið undir. „Lög á borð við Þórsmerkurljóð, Ég er kominn heim og annað sem allir ættu að kunna,“ segir Bjössi sem vonast til að sjá sem flesta.
„Það hefur aldrei rignt dropi í brekkunni þessi þrettán ár í Kópavogi. Ég trúi ekki öðru en góða veðrið elti okkur á Flúðir í þetta skiptið,“ segir Bjössi.
Brekkusöngnum verður streymt á Stöð 2 Vísi (rás 5 hjá Vodafone og 8 hjá Símanum) og hér á Vísi á sunnudaginn klukkan 21:30. Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast á vefsíðunni Flúðir um Versló.
Þá má nálgast söngtexta viðburðarins á www.greifarnir.is/brekkan fyrir þá sem vilja taka virkan þátt í gleðinni.