Félag harmonikuunnenda í Reykjavík er alltaf með harmonikukmót á Borg í Grímsnesi um verslunarmannahelgina og þar koma saman harmonikkuleikarar víða af landinu til að spila og skemmta sér með sínu fólki. Hátíðartónleikar voru til dæmis haldnir í gær með sænska harmoníkuleikaranum Anniku Andersson og svo var samspil á tjaldsvæðinu þar sem flott harmoníkulög voru tekin og fólk dansaði á grasflötinni.
„Þetta er bara frábært og þetta er svo skemmtilegur félagsskapur og það eru allir velkomnir með. Við viljum bara fá sem flesta,” segir Gyða Guðmundsdóttir, sem er í forsvari fyrir hátíðina og harmónikuleikari með meiru.

Og kunna allir þessir karlar og konur á nikkur?
„Já, já, við kunnum öll eitthvað en við kunnum mismikið en það er bara gaman en svo komum við bara saman og gerum það besta úr þessum hljóðfærum. Ég segi bara eins og einn góður sagði á Bylgjunni að harmonikkan er hljóðfæri hljóðfæranna,” segir Gyða skælbrosandi.

Og Reynir Jónasson, sem er komin á tíræðisaldur er enn að spila á nikkuna sína og gefur ekkert eftir í þeim efnum en hann var líka organisti í 50 ár.
„Ég byrjaði að glamra upp úr fermingu og eignaðist svo harmonikku þegar leið á annan áratuginn,” segir Reynir.
En hvort er skemmtilegra, orgelið eða nikkan?
„Það fer bara eftir því hvernig skapi maður er í. Ég vil ekki gera upp á milli því ég elska hvort tveggja,” segir Reynir.
