Körfubolti

Ísa­fjarðar­tröllið snýr ekki aftur heim til þess að verða hetjan

Aron Guðmundsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með Tindastól
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með Tindastól Vísir/Bára

Sigurður Gunnar Þor­steins­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í körfu­bolta og fjór­faldur Ís­lands­meistari snýr aftur á heima­slóðir og leggur liði Vestra á Ísa­firði lið í komandi bar­áttu liðsins í 2.deildinni. Sigurður segist ekki koma inn í lið Vestra til þess að verða ein­hver hetja, hann ætlar þó leggja sitt á vogar­skálarnar til þess að hjálpa til við að byggja fé­lagið upp á nýjan leik

„Þessi mögu­leiki kom upp í byrjun júlí í fjöl­skyldu­fríi, hvort að ég gæti hugsað mér að snúa aftur vestur,“ segir Sigurður Gunnar í sam­tali við Vísi. „Staðan var sú að okkur fjöl­skyldunni langaði ekki að flytjast bú­ferlum til Reykja­víkur og að sama skapi reyndist það ansi góð til­hugsun að vera nærri fjöl­skyldunni minni á Ísa­firði og því slógum við til.“

Sigurður snýr því aftur á heima­slóðirnar á Ísa­firði. Þar hófst ferill hans með liði KFÍ sem nú er orðið að Vestra.

Skælbrosandi Sigurður mættur aftur á heimaslóðirnarMynd: Vestri

Hvernig er til­finningin hjá þér fyrir því að snúa aftur heim til Ísa­fjarðar?

„Maður er bæði spenntur og er að upp­lifa á­kveðna nostalgíu til­finningu fyrir þessu. Það er á­kveðin upp­bygging í gangi hjá fé­laginu, upp­bygging sem snýr að því að koma fé­laginu aftur á réttan stað. Að geta hjálpað til við það er spennandi verk­efni.“

Vestri, sem hefur verið reglu­legur þátt­takandi í 1.deild og jafn­vel efstu deild, finnur sig nú á fremur ó­kunnugum slóðum í 2.deild.

Fóru aftur í grunninn

Stjórn körfu­knatt­leiks­deildar fé­lagsins óskaði eftir því, sumarið 2022, við móta­nefnd KKÍ að fá að færa sig niður um deild í 2.deildina og ein­blínir fé­lagið nú á að byggja upp lið í kringum kjarna af ungu leik­mönnum fé­lagsins í bland við reynslu­meiri leik­menn.

Í þann hóp virðist Sigurður Gunnar, sem hlaut upp­eldi sitt í körfu­bolta á Ísa­firði, smell­passa og mun hann án efa koma að borðinu með reynslu frá sínum at­vinnu- og lands­liðs­ferli og miðla til næstu kyn­slóðar leik­manna á Ísa­firði.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að verða hluti af þessum hóp. Það er kjarni af ungum leik­mönnum þarna til staðar og svo verð ég þarna á­samt einum kana. Okkur er falið það verk­efni að koma Vestra aftur upp um deild og ég býst við verðugu verk­efni fram undan.

Þekking mín á 2.deildinni er ekkert svaka­lega mikil og því veit ég ekki alveg ná­kvæm­lega hvað ég er að fara út í en ég tel það alveg ger­legt fyrir okkur að gera at­lögu að 1.deildinni.“

Ekki að fara slaka á

Fé­lags­skiptin komu án efa mörgum á ó­vart en Sigurður Gunnar var hluti af liði Tinda­stóls sem varð Ís­lands­meistari á síðasta tíma­bili.

Þú ert ekkert að fara aftur heim til Ísa­fjarðar til þess að slaka á er það?

„Nei alls ekki. Þegar að þessi kostur kom upp á borðið þá virkaði það bara full­kom­lega, bæði fyrir mig sem leik­mann en einnig fyrir okkur fjöl­skylduna, að geta sest að á Ísa­firði.

Að sama skapi er ég ekkert að koma heim til þess að vera ein­hver hetja. Ég er að snúa aftur heim til þess að hjálpa til við að byggja upp fé­lagið á nýjan leik en það er ekki bara mitt verk­efni. Við þurfum öll að taka höndum saman og ég mun gera mitt í að miðla minni reynslu til yngri leik­manna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×