Bríet er dularfull á svip þegar blaðakona leggur fyrir hana spurninguna hvert umfjöllunarefni nýja lagsins sé. „Ég vil ekki gefa of mikið uppi en þetta lag fjallar um kynlíf. Titillinn, Venus þykir okkur viðeigandi því Venus er ástarstjarnan.“
Lagið hefur verið lengi í smíðum, nánar tiltekið í fjögur ár. „Við fullkláruðum lagið loksins núna í maí síðastliðnum. Lífið tók einfaldlega við þessi fjögur ár í millitíðinni og nú er lagið loksins að koma út.“
Einstök vinátta skín í gegn
Ellefu ár eru síðan Ásgeir Trausti gaf út lagið Dýrð í dauða þögn á samnefndri plötu sem naut gríðarlegrar vinsælda. Í tilefni af tíu ára afmæli plötunnar í fyrra gaf Bríet svo út ábreiðu af laginu sem finna má á plötunni Stór agnarögn.
Spurð hvernig samstarfið hafi upphaflega komið til segir hún vinskap þeirra Ásgeirs einstakan í alla staði. „Við erum aðallega svo fallegir vinir og það skín í gegn þegar við setjumst í stúdíóið og semjum saman.“
Áhugasamir geta hlustað á lagið Venus hér.