Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að hópurinn hafi farið að Álftavatni þar sem talið var að hópurinn væri á þeim slóðum. Síðar kom í ljós að þau voru í svokölluðum Jökultungum, rétt ofan við skálann við Álftavatn.
Komið var að fólkinu um hálf ellefu í gær en aðstæður voru þá mjög erfiðar þar. Veður var slæmt og rigning mikil. Vegna bleytunnar var mjög hált. Hitt fólkið fékk fylgd í bíla björgunarfólksins og var búið um þann sem örmagnaðist.
Þá varð björgunarsveitarfólki ljóst að það þyrfti liðsauka til að bera manninn niður, eða aðstoð áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Sveitir á Suðurlandi voru kallaðar út og var liðsauki kominn á staðinn rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Þá var hinn hluti hópsins kominn í skjól í skálanum við Álftavatn, þar sem þau fengu heita drykki og næringu hjá skálavörðum. Maðurinn var kominn í skálann rúmlega hálf þrjú.
Í tilkynningunni segir að fólkið hafi fengið gistingu á Hellu, eftir að hjúkrunarfræðingur hafði metið ástand mannsins sem örmagnaðist. Þá verður hluti búnaðar hópsins, sem var skilinn eftir upp á hálendi, sóttur í dag.