Fótbolti

Segist sjá eftir því að hafa ekki skipt um markmann í miðjum leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Arsenal mega búast við því að Mikel Arteta nýti skiptingar í leikjum vetrarins til að skipta um markmann.
Stuðningsmenn Arsenal mega búast við því að Mikel Arteta nýti skiptingar í leikjum vetrarins til að skipta um markmann. Michael Regan/Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segist oft hafa hugsað um það að skipta um markmann í miðjumn leik og að hann sjái eftir því að hafa ekki gert það hingað til.

Það vakti athygli fyrir leik Arsenal gegn Everton í gær að Spánverjinn David Raya var í byrjunarliði Arsenal á kostnað Aaron Ramsdale. Raya var fenginn til Arsenal á láni frá Brentford fyrir tímabilið, en hingað til hefur Ramsdale haldið sæti sínu sem aðalmarkvörður liðsins.

Eftir komu Raya og vangaveltur margra um markvarðarstöðuna hefur Arteta þó talað um að eins og annars staðar á vellinum þurfi menn að keppast um stöðurnar. Aðspurður út í ástæðu þess að Raya væri í byrjunarliðinu í gær í staðin fyrir Ramsdale voru svörin á þá leið hjá spænska þjálfaranum.

„Það er sama ástæða og af hverju Fabio Viera spilaði og Gabriel Jesus ekki. Ég er ekki búinn að fá eina einustu spurningu um það af hverju Gabriel hefur ekki verið að byrja. Hann er búinn að vinna fleiri titla en nokkur annar í hópnum,“ sagði Arteta.

„Ég vil að Aaron [Ramsdale] bregðist við eins og Gabriel Jesus. Eins og Kai Havertz og Takehiro Tomiyaso. Nákvæmlega eins. Við spilum með ellefu leikmenn, ekki tíu plús einn.“

„Ég er ungur stjóri sem er búinn að vera í starfi í þrjú og hálft ár. Það er fátt sem ég sé eftir, en eitt af því gerðist tvisvar. Einu sinni á 60. mínútu og einu sinni á 85. mínútu í tveimur mismunandi leikjum þegar mér fannst eins og ég þyrfti að skipta um markmann á þeim stundum.“

„Ég gerði það ekki því ég þorði því ekki. En ég get tekið vængmann af velli og sett miðvörð inn á til að breyta í fimm manna varnarlínu og halda í úrslit. Við gerðum jafntefli í þessum tveimur leikjum sem ég er að tala um og ég var ótrúlega fúll út í sjálfan mig,“ sagði Arteta að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×