„Í miðri fréttavinnslu, þegar fréttamenn voru að klippa fréttir og ganga frá tímanum varð allt svart hjá okkur. Við gerðum allt sem við gátum til að laga þetta og senda út þéttan kvöldfréttatíma en því miður fyrir dygga og fréttaþyrsta áskrifendur okkar tókst það ekki. Aftur á móti fara fréttirnar á mest lesna vef landsins, Vísi og við verðum mætt spræk á Bylgjuna klukkan sjö í fyrramálið að færa þjóðinni fréttir,“ segir Erla Björg Gunnarsdóttir, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.
„Rafmagnsleysið hafði áhrif á ýmis kerfi sem eru nauðsynleg til að framleiða fréttirnar og senda út. Við leggjum áherslu á líflegan fréttatíma á Stöð 2, með beinum útsendingum og góðu sjónvarpi, og við munum heldur betur standa við það á morgun, klukkan 18:30.“

Páll Jónsson, forstöðumaður fjölmiðlalausna Sýnar segir sjónvarps- og útvarpsstöðvar miðlanna komnar í gang aftur en þó með einhverjum truflunum þar sem enn er unnið að lagfæringu.
„Við erum að vinna hörðum höndum að því að koma öllum kerfum í lag eftir áhrif rafmagnstruflananna. Unnið verður eftir þörfum að klára það, eins lengi og þarf. Við erum með helstu sérfræðinga landsins í málinu.“