„Þetta er geggjaður dagur fyrir skíðaáhugafólk. Ég held við höfum öll beðið frekar lengi eftir þessu,“ segir Einar Bjarnason rekstrarstjóri Bláfjalla.
Lækunum rignir eftir að stuttu myndbandi var deilt á Facebook-síðu skíðasvæðanna í dag þar sem tilkynnt var að snjóframleiðsla væri loksins hafin.
„Það eru tæknimenn að utan komnir til að prófa kerfið,“ segir Einar. Dagurinn í dag hafi ekki verið valinn með tilliti til veðurs enda snælduvitlaust veður í Bláfjöllum eins og víða um land.
„Það var ekkert hægt að bakka út úr þessu. Við verðum að græja þetta meðan þessir gæjar eru á landinu. En maður finnur ekkert fyrir veðrinu á svona hátíðisdegi. Manni er skítsama þótt það sé rok, hvasst og ískalt. Þetta er svo geggjaður dagur.“
Eitthvað er í að opnað verði í Bláfjöllum enda þarf töluvert meiri snjó til þess.
„Það er þrifalag núna eins og maður segir.“