Innlent

David Atten­bor­ough deildi ekki myndinni

Bjarki Sigurðsson skrifar
David Attenborough deildi ekki ljósmynd Morgunblaðsins eins og kom fram í blaðinu í morgun.
David Attenborough deildi ekki ljósmynd Morgunblaðsins eins og kom fram í blaðinu í morgun. Getty/Vísir/Egill

David Attenborough deildi ekki ljósmynd ljósmyndarans Árna Sæberg líkt og haldið er fram í Morgunblaðinu í morgun. Um er að ræða aðdáendasíðu með 400 fylgjendur. 

Í morgun birtist frétt bæði í Morgunblaðinu og á vef Mbl.is með fyrirsögninni: „Ljósmynd Árna hefur farið víða“. Umrædd ljósmynd er frá árinu 2009 og er af Þrídröngum sem eru vestur af Heimaey og vitanum sem þar er. Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók myndina. 

Í fréttinni er vakin athygli á því að líffræðingurinn og sjónvarpsmaðurinn David Attenborough hafi deilt myndinni á Facebook síðu sinni. Rúmlega átta hundruð manns hafi „lækað“ færsluna og tæplega tvö hundruð deilt henni. Með fylgdi skjáskot af færslu Attenborough.

Aðgangurinn sem deildi færslunni er þó ekki í eigu Attenborough. Um er að ræða aðdáendasíðu með tæplega fjögur hundruð fylgjendur og var stofnuð um miðjan síðasta mánuð. 

Aðdáendasíðan deildi myndinni í hópnum „David Attenborough Fans“ sem samanstendur af 530 þúsund aðdáendum Attenborough sem er einn vinsælasti sjónvarpsmaður heims.

Færslan umrædda frá „David Attenborough“ nema þessi reikningur er með tæplega fjögur hundruð fylgjendur. 

David Attenborough er ekki með aðgang á Facebook en er virkur á Instagram þar sem 5,6 milljónir manna fylgja honum. Hann hefur verið virkur á Instagram frá árinu 2020 og setti met þegar hann sópaði til sín milljón fylgjendum á fyrstu fjóru klukkustundunum.

En ekki verður um það deilt að mynd Árna af Þrídröngum er mögnuð og má sjá víða í dreifingu á netinu undanfarinn rúman áratug. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×