Amor blóma- og gjafavörubúð er vinsæl verslun á Höfn í Hornafirði og eina búð sinnar tegundar á staðnum. Eigandi hennar, Amor Joy, sem er frá Filippseyjum er bráðhress og skemmtileg en hún hefur búið á Íslandi í 18 ár. Hún segist vita nákvæmlega hvenær íbúar á Höfn og í sveitunum þar í kring eiga afmæli því þá er alltaf von á viðskiptum.
„Maður veit ýmislegt sko,” segir Amor Joy skellihlæjandi.
Og er ekki gaman að eiga svona blómabúð?
„Það er mjög gaman, þetta er náttúrulega draumur, það er kannski erfitt stundum en þetta er bara gaman.”
Hún segist hafa rekið búðina í þrjú ár og það hafi bara gengið nokkuð vel.
En hvernig líkar Amor Joy að búa á Höfn?
„Hér er mjög, mjög gott að búa á Höfn. Bara rólegt umhverfi og ekkert vesen.”

Og Amor Joy talar góða íslensku.
Já, er það ekki, ef maður þarf að flytja í annað land þá verður maður að læra tungumálið til að komast inn í samfélagið.”
Og Amor Joy er með sérstök grös fyrir ketti í búðinni.
„Þetta eru kattargrös, sem eru fyrir fólk sem er með ketti, sem mega ekki fara út. Kisurnar liggja á og við grösin og borða þau líka, þetta er frábær og vinsæl vara”, segir Amor Joy.
