Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri færslu á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að líkanreikningar sýni að um 1,3 milljón rúmmetrar hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í kvikuganginn síðastliðinn laugardag.
„Kvikugangurinn sem myndaðist í kjölfarið var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Rúmmál kviku sem fór inn í kvikuganginn í þessum atburði var því mun minni heldur en í fyrri atburðum þar sem að um 10 milljón rúmmetrar af kviku mynduðu kvikuganginn.
Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn. Kvikuflæði undir Svartsengi heldur því áfram og líkanreikningar sýna að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast á sólarhring. Í heildina hafa um 9,5 milljón rúmmetrar af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðan í eldgosinu 8. febrúar.

Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.
Líkleg atburðarrás næstu daga:
- Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
- Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
- Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells