Í þætti kvöldsins heimsækir Baldur Skagamenn sem nú eru mættir í Bestu deildina á nýjan leik, staðráðnir í að koma ÍA aftur nær þeim sessi sem það skipaði um langt árabil sem ríkjandi stórveldi í íslenskum fótbolta. Hann ræðir meðal annars við Arnór Smárason en brot úr því spjalli má sjá hér að neðan.
ÍA hefur alið upp marga af bestu leikmönnum landsins og átti til að mynda þrjá leikmenn (Arnór Sigurðsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson) í 23 manna landsliðshópi Íslands gegn Ísrael á fimmtudaginn. Þegar skipta þurfti einum þeirra (Arnóri) út vegna meiðsla kom annar Skagamaður inn í staðinn (Stefán Teitur Þórðarson).
Geggjað að kynnast íslenskum fótbolta upp á nýtt
Á meðal landsliðsmanna í gegnum tíðina er svo Arnór Smárason sem fór 16 ára gamall í atvinnumennsku en sneri heim til Íslands í lok árs 2020. Þessi 35 ára miðjumaður fór svo heim til ÍA fyrir síðustu leiktíð og átti sinn þátt í að koma liðinu upp í Bestu deildina.
„Ég sagði einhvern tímann að mig langaði að enda ferilinn á Akranesi, en þegar ég kem heim þá var ég búinn að vera meiddur lengi. Búinn að fara í aðgerð á hné, samningurinn minn hjá Lilleström í Noregi var að renna út. Áður en að það allt gerðist var það ekkert rosa mikið í plönunum að koma heim [til Íslands],“ segir Arnór í spjalli við Baldur í þætti kvöldsins.
„En hlutir breytast fljótt í fótbolta og við ákváðum að taka þetta skref. Ég sé ekki eftir því. Það hefur verið geggjað að koma heim aftur í íslenska boltann, og kynnast íslenskum fótbolta upp á nýtt,“ segir Arnór en brot úr spjalli við hann má sjá hér að ofan.
Þátturinn er á dagskrá klukkan 20 í kvöld, á Stöð 2 Sport.