Innlent

Fólk á Aust­fjörðum sleppi því að vera á ferðinni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Gul viðvörun tók gildi fyrr í kvöld og stendur fram á sunnudagskvöld.
Gul viðvörun tók gildi fyrr í kvöld og stendur fram á sunnudagskvöld. Vísir/Vilhelm

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi fundaði fyrir skemmstu með Veðurstofu og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum. Gert er ráð fyrir talsverðri úrkomu í nótt. Búið er að rýma svæði á Seyðisfirði og Neskaupstað. 

Greint var frá því fyrr í kvöld að eflt hafi verið til rýmingar á tveimur svæðum á Seyðisfirði og einu svæði á Neskaupstað. 

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn á Austurlandi segir að ekki sé gert ráð fyrir að úrkomu sloti að ráði fyrr en á mánudag. Vegir á Seyðisfirði og í Neskaupstað á rýmdum svæðum séu þó opnir fyrir umferð. Vegna veðurs séu íbúar fjórðungsins þó hvattir til að vera ekki á ferðinni nema ef nauðsyn krefur. Mikilvægt sé að fylgjast vel með upplýsingum um færð og veður.

Rýmingarsvæði á Seyðisfirði er hér litað með grænu.

Aðgerðarstjórn fundar næst klukkan níu í fyrramálið og er nýrra upplýsinga að vænta í kjölfarið. Staðan er hinsvegar vöktuð allan sólarhinginn af starfsmönnum Veðurstofu og snjóflóðaeftirlitsmönnum hennar. 

Loks segir að ekki sé talin hætta utan rýmdra svæða.

Rýmingarsvæði í Neskaupstað er hér litað með grænu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×