Þetta staðfestir Gylfi Þór í samtali við fréttastofu. „Það er búið að þrýsta mikið á mig víða að. Um tvö hundruð manns. Bæði fólk sem ég þekki en aðallega fólk sem ég þekki alls ekki.
Það er hins vegar þannig að starf forseta er „full tæm“ starf. Maður hættir ekkert að vera forseti á kvöldi og um helgar. Málið er ég hef svo svakalega gaman af neyðarvörnum þegar slíkt kemur upp og ég held að kröftum mínum sé betur varið þar, að minnsta kosti að sinni,“ segir Gylfi Þór.
Gylfi Þór er landsmönnum vel kunnur eftir að hafa séð um rekstur sóttvarnarhúsa Rauða krossins í kórónuveirufaraldrinum og aðgerðarstjóri félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna komu flóttafólks frá Úkraínu. Gylfi hefur auk þess sinnt sjálfboðastörfum í neyðarvörnum fyrir Rauða krossinn um margra ára skeið.
Fór undir feldinn
Gylfi Þór sagði í samtali við Heimildina á öðrum degi ársins að hann væri líklegast kominn undir feldinn fræga eftir að hafa fengið áskoranir frá fólki um að bjóða sig fram til forseta. Hann hafði þá daginn áður tekið við fálkaorðu úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta fyrir störf í þágu samfélags og mannúðar.
Gylfi Þór sagði í viðtalinu 2. janúar að ef þessar beiðnir myndi halda áfram að koma til hans á næstu dögum þá væri það greinilega eitthvað sem hann þyrfti að taka með sér undir feldinn fræga og hugsa málin. „En mér finnst líklegt að þetta sé til komið því ég var að fá fálkaorðuna. Síðan kemur fram einhver sterkur kandídat og þá er mitt korter bara liðið,“ sagði Gylfi Þór.