Hér erum við að tala um sauðfjárbúið hjá þeim Jóni Sindra og Andreu í Vestri Grund 1 við Stokkseyri í Sveitarfélaginu Árborg. Þau eiga von á um 450 lömbum í vor en fyrstu lömbin eru þó komin í heiminn.
„Já, það er eitthvað smá af lausaleiks króum, eitthvað smá fyrirmáls en sauðburður á annars ekki að byrja fyrr en eftir tvær vikur. Þetta er besti tími ársins, það er bara þannig,” segir Jón Sindri.
Jón Sindri segist binda miklar vonir við ARR í tengslum við sæðingar en búið hjá þeim Andreu er í fyrsta skipti núna að taka þátt í sæðingum. Með ARR á Jón Sindri við verndandi gen gegn riðuveiki.
En það er alltaf gaman að sjá hvað nýfædd lömb eru fljót að komast á spena hjá mæðrum sínum á meðan stærri lömbin líta á það sem sjálfsagðan hlut mörgum sinnum á dag.

En að vera sauðfjárbóndi í dag, er það skemmtilegt?
„Já, já, við verðum að segja að það sé bjart fram undan og að það sé allt upp á við. Afurðaverð fer allavega hækkandi og svo þetta ARR dæmi, þetta sé bara í góðum málum núna,” segir Jón Sindri.
