Könnun Maskínu fór fram dagana 22. til 26. apríl og svarendur voru 1072. Halla Hrund, sem hefur verið mikill hástökkvari milli kannana upp á síðkastið, mælist nú efst allra frambjóðenda með rétt rúmlega 26 prósenta fylgi. Hún mældist með 10,5 prósenta fylgi í síðustu könnun Maskínu 18. apríl og bætir þannig við sig tæpum sextán prósentum.

Halla Hrund var til viðtals í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hún var innt eftir viðbrögðum við könnun Maskínu:
Katrín Jakobsdóttir mælist með næstmest fylgi, 25,4 prósent, og Baldur Þórhallsson er þriðji með 21,2 prósent fylgi. Jón Gnarr kemur þar á eftir með 15,2 prósent en aðrir frambjóðendur eru talsvert langt á eftir; Halla Tómasdóttir næst með 4,1 prósent og Arnar Þór Jónsson með 3,3 prósent. Ekki er marktækur munur á stuðningi við þau Höllu Hrund, Katrínu og Baldur en munurinn er hins vegar marktækur á Baldri og Jóni Gnarr.

Halla Hrund nýtur nokkuð afgerandi stuðnings meðal kjósenda Flokks fólksins og Miðflokksins; rúm 35 prósent beggja flokka styðja hana, samkvæmt könnuninni. Þá er hún einnig vinsælust meðal Pírata. Katrín nýtur mest fylgis meðal Framsóknarmanna, er með næstum fjörutíu prósenta fylgi þeirra, og Sjálfstæðismenn eru einnig hallastir undir Katrínu.
Hún nýtur enn fremur afgerandi stuðnings síns gamla flokks, rúm sextíu prósent kjósenda Vinstri grænna myndu kjósa hana. Baldur fær svo mest fylgi hjá kjósendum Samfylkingar, Viðreisnar og Sósíalistaflokksins.