Íslenski hópurinn hélt til Malmö í Svíþjóð á laugardaginn. Hera Björk Þórhallsdóttir, sem flytur lagið Scared of heights, æfði atriðið á sviðinu í Malmö Arena i gær. Rúnar Freyr Gíslason, farstjóri Íslenska hópsins segir æfinguna hafa gengið framar vonum og að góð stemning sé innan hópsins þrátt fyrir að verkefnið sé öðruvísi og kröfumeira en venjulega.
„Það sem við erum að setja allan fókus á er að gera þetta að flottu atriði. Það var heldur betur að gerast í gær á fyrstu æfingunni sem gekk alveg ótrúlega vel. Við erum að gera miklar breytingar á atriðinu, bæði lúkki, grafík, handahreyfingum og allskonar,“ segir Rúnar.
Hann segist skynja mikinn áhuga fólks á Heru.
„Blaðamennirnir þekkja hana frá því að hún var í keppninni fyrir mörgum árum. Þeir flykkjast að henni og til dæmis núna er hún í þriggja tíma viðtalssessioni þar sem blaðamenn koma á hótelið og tala við hana hver á eftir öðrum. Svo það gengur vel og við erum stolt af henni. Hún er flott í viðtölum, frábær á sviðinu. Það geislar af henni og hún gefur mikið af sér.“
Keppnin öðruvísi en áður
Rúnar Freyr segir hópinn finna vel fyrir andstöðu frá Íslandi varðandi þáttöku í keppninni í ár sem og þáttöku ísraels.
„Við finnum vel fyrir því. Maður er bara heiðarlegur með það. Og vera Ísraelsmanna hér þegar ástandið er svona og þeir eru að haga sér svona þarna á Gaza þá litar það keppnina. Þó keppnin sé stofnuð á þeim grunni að vera friðar-og sameinandi og tákn friðar eftir seinni heimsstyrjöldina þá litar þetta keppnina og það er bara þannig. Og það litar keppnina líka þessi andstaða frá Íslandi og við finnum fyrir henni og höfum gert það, og það auðvitað verður að segjast eins og er það er dálítið öðruvísi en hefur verið.“
Næsta æfing er 1.maí.
„Við hlökkum til að sjá afraksturinn og sýna hann íslensku þjóðinni þegar Hera stígur á svið,“ segir Rúnar Freyr Gíslason, fararstjóri íslenska hópsins.