„Ég grét ekki þegar hún var tekin, ég grét ekki þegar ég horfði á hana gegnum glerið, ég hef aldrei grátið hana. Ég hef aldrei þorað að sakna hennar en ég má það núna eftir þennan þátt,“ segir Ólöf Melkorka Laufeyjardóttir sem sagði frá reynslu sinni af því að missa barn sitt á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins vegna aðstæðna sinna, sem var sýndur á Stöð 2 í gærkvöldi.
Hún telur að hið opinbera skuldi sér afsökunarbeiðni.
„Ósk mín er að fá nafnið mitt til baka, að fá mig til baka. Það verði sagt við mig: Ólöf Melkorka þú ert eðlileg en lentir í áföllum sem breyttu hegðun þinni á þessum tíma. Það er bara hægt með því að hið opinbera kerfi biðji mig afsökunar á hvernig komið var fram við mig á þessum tíma. Ég þarf að fá skilning og virðingu. Að það verði tekið í höndina á mér og ég verði beðin fyrirgefningar. Mér yrði jafnvel hælt fyrir hversu langt ég hef náð í lífinu þrátt fyrir að kerfið hafi traðkað á mér um árabil,“ segir Ólöf Melkorka.
Gengu í gegnum logandi helvíti
Það sama eigi við um aðrar fátækar, veikar eða einstæðar mæður sem voru í svipaðri stöðu og hún á þessum tíma og misstu barn sitt á Vöggustofu vegna erfiðra aðstæðna.
„Kerfið ætti að biðja allar þessar mæður sem gengu í gegnu logandi helvíti, fyrirgefningar. Ég veit það margar eru dánar þetta er svo langur tími sem er liðinn en jafnvel dáin manneskja á fyrirgefningu skilið og enduruppreisn,“ segir hún.
Hún segir að reynsla sín hafi haft mikil áhrif á sig allt lífið.
„Það er fátt erfiðara en að verða fyrir því að barn er tekið af manni og fylgir manni alla tíð,“ segir Ólöf.