Landsmót 50 plús fór fram í Sveitarfélaginu Vogum á Suðurnesjum um helgina þar sem keppt var í fjölmörgum greinum þar sem gleðin var í fyrirrúmi. Mótið var samvinnuverkefni Ungmennafélags Íslands og Ungmennafélagsins Þróttar í Vogum. Það, sem vakti hvað mesta athygli og spennu á mótinu var pönnukökubaksturskeppni.

Keppnin fór fram í slökkviliðsstöðinni af einhverjum ástæðum en nokkrar konur, engin karl, tók þátt og sýndu snilldartilþrif. Presturinn á staðnum, séra Arnór Bjarki Blómsterberg var einn af dómurunum en keppendur þurftu að fara eftir fyrirfram ákveðnum reglum svo allt væri löglegt og ekkert svindl í gangi.
„Þetta er geggjað, svaka spenna, þetta er öðruvísi, ég er mikil pönnukökukona,” segir Oktavía Ragnarsdóttir keppandi,

Og svo var komið að því að veita verðlaunin og samdómaálit dómnefndar var að Eygló Alexandersdóttir í Reykjanesbæ væri pönnukökumeistari landsmótsins og Íslands í leiðinni.
Hún fékk að sjálfsögðu koss frá eiginmanninum áður en hún kom í viðtal.
„Heyrðu, þetta var bara skemmtilegt já, virkilega. Það eru bara nokkur ár síðan tengdamamma mín lést og systir hennar, sem voru pönnukökumeistarar fjölskyldunnar, þá fór ég að taka þetta upp. Það eru kannski svona tíu til fimmtán ár síðan, þá fór ég að prófa mig áfram og hef svo gaman af þessu,” segir Eygló Alexandersdóttir, pönnukökumeistari með meiru.
En hvað er það við pönnukökubakstur, sem þarf að hafa helst í huga?
„Ég er nú með gömlu uppskriftina hennar mömmu minnar og það er kaffi í mínum pönnukökum, það er leyndarmálið. Og svo bara kannski að hafa þær svolítið þunnar. Ég er töluvert í því að baka, já og pönnukökur og margt annað, vandræði og allt,” segir Eygló skellihlæjandi.

