Höskuldur Gunnlaugsson tryggði Breiðabliki 2-1 endurkomusigur á ÍA upp á Akranesi með marki úr vítaspyrnu sem Ísak Snær Þorvaldsson fiskaði í uppbótartíma. Markið kom á fimmtu mínútu uppbótartímans.
Hlynur Sævar Jónsson hafði komið ÍA í 1-0 á 63. mínútu en Kristófer Ingi Kristinsson jafnaði metin átta mínútum fyrir leikslok. Blikar náðu þriggja stiga forystu á Víkinga með þessum sigri en Víkingar eiga einn leik inni.
FH-ingar unnu líka endurkomusigur á útivelli þegar þeir fögnuðu 3-2 sigri á Fylki í Árbænum. Þetta var langþráður sigur hjá FH sem hafði ekki unnið leik í ágústmánuði. Sigurmarkið skoraði fyrrum Fylkismaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen átta mínútum fyrir leikslok.
Emil Ásmundsson og Orri Sveinn Segatta komu báðir Fylkismönnum tvisvar yfir í leiknum en Björn Daníel Sverrisson jafnaði fyrir FH í bæði skipin. Björn Daníel kórónaði leik sinn með því að leggja upp sigurmark Arnórs.
Gunnar Jónas Hauksson kom tíu Vestramönnum í 1-0 á móti ellefu Valsmönnum en það dugði skammt. Tryggvi Hrafn Haraldsson, Jónatan Ingi Jónsson og Patrick Pedersen skoruðu allir og tryggðu Val 3-1 sigur. Vestramenn misstu Gustav Kjeldsen af velli með rautt spjald strax á sjöttu mínútu og það má sjá brotið hér fyrir neðan.
Mörkin úr leikjunum má sjá hér fyrir ofan og neðan.