Innlent

Norður­lönd dýpka sam­vinnu í varnar­málum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá undirrituninni í Noregi.
Frá undirrituninni í Noregi.

Ríkisstjórnir allra Norðurlandanna tilkynntu í dag undirritun tillagna um nánara samstarf á sviði varnarmála. Eftir inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið eru öll Norðurlöndin í bandalaginu og gerir það ríkjunum kleift að efla samvinnuna frekar.

Samkvæmt yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Noregs skrifuðu varnarmálaráðherrar Norðurlanda undir samkomulagið en það eru Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Jónas Gunnar Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, skrifaði undir fyrir hönd Íslands.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að tillögurnar muni nýtast vel til að ná markmiðum framtíðarstefnu NORDEFCO (áðurnefndrar varnarsamvinnu) til 2030, sem var samþykkt 30. apríl síðastliðinn. Þær fela í sér aukið samstarf á bæði tímum friðar og stríðs.

Norðurlönd muni samræma varnaráætlanir sínar, fjölga sameiginlegum æfingum og samræma fræðslu og aðra hernaðarinnviði eins og samskiptakerfi og stjórnskipulag.

Tillögurnar sem skrifað var undir voru þróaðar innan NORDEFCO og eiga að endurspegla sameiginlegar skuldbindingar um að styrkja fælingu og varnir Norðurlandanna og Evró- Atlantshafssvæðisins á grundvelli aðildar að Atlantshafsbandalaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×