Íslenski boltinn

Gætu spilað um titilinn á sunnu­degi í Víkinni

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingur og Breiðablik eru í æsispennandi kapphlaupi um Íslandsmeistaratitilinn.
Víkingur og Breiðablik eru í æsispennandi kapphlaupi um Íslandsmeistaratitilinn. vísir/Diego

Enn er útlit fyrir að úrslitin í titilbaráttu Bestu deildar karla í fótbolta ráðist í lokaumferðinni og nú er ljóst að Víkingur og Breiðablik munu eiga sviðið á lokadegi mótsins.

KSÍ hefur nú staðfest leikjadagskrána í þeim fjórum umferðum sem eftir eru, í efri og neðri hluta Bestu deildar karla. Mótinu lýkur ekki fyrr en undir lok október, vegna landsleikjahlés um miðjan mánuðinn.

Í lokaumferðinni spila öll lið nema Víkingur og Breiðablik á laugardegi, 26. október. Mögulegur úrslitaleikur Víkings og Breiðabliks um titilinn verður svo sunnudaginn 27. október klukkan 14. Spilað verður í Víkinni vegna þess að Víkingar enduðu hefðbundnu deildakeppnina ofar en Blikar.

Þessi mögulegi úrslitaleikur verður því þremur dögum eftir að Víkingar mæta Cercle Brugge í Sambandsdeild Evrópu, á heimavelli Blika í Kópavoginum.

Spennan er ekki bara mikil í titilbaráttunni heldur einnig í baráttunni um 3. sætið mikilvæga, sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta ári. Eftir að KA varð bikarmeistari um helgina, og tók þar með Evrópusæti, er ljóst að 4. sæti deildarinnar dugar ekki til að komast í Evrópukeppni.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir síðustu umferðirnar, í efri og neðri hlutanum, og stöðutöflurnar.

Staðan í efri hlutanum fyrir síðustu fjórar umferðirnar.KSÍ
Leikirnir sem eftir eru í efri hluta Bestu deildar karla.KSÍ

Hörð fallbarátta

Fjögur lið eiga enn á hættu að falla úr deildinni. Fylkir og KR eru í fallsætum en HK og KR eru skammt undan og ljóst að allt getur gerst í lokaumferðunum.

Staðan í neðri hlutanum þegar fjórar umferðir eru eftir.KSÍ
Leikirnir sem eftir eru í neðri hluta Bestu deildarinnar.KSÍ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×