Fjallað verður um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 auk þess sem ítarlega umfjöllun verður hægt að sjá í Kompás að loknum fréttum.
Eitt ár er í dag liðið frá árás Hamas-liða á Ísrael. Minningarstundir um fórnarlömb voðaverkanna og samstöðugöngur fyrir Palestínu fóru víða fram í dag, meðal annars í Háskóla Íslands. Við sjáum frá því og heyrum í íslenskum stúdentum.
Nýkjörinn formaður Vinstri grænna segir forystufólk stjórnarflokkanna væntanlega setjast niður á næstunni til að ræða framhald stjórnarsamstarfsins fram að kosningum, sem Vinstri græn vilja að fari fram næsta vor. Heimir Már Pétursson fer yfir áhugaverða stöðu í pólitíkinni.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hefur skipað Isavia að afhenda borginni flugvallarland í Skerjafirði undir nýtt íbúðahverfi. Kristján Már Unnarsson ræðir við þingmann Sjálfstæðisflokksins sem kallar þetta árás á flugvöllinn og segir að hann þurfi að verja með fullum hnefa.
Þá verðum við í beinni frá framkvæmdasvæðinu við Vesturbugt þar sem uppbygging er loks að hefjast, sjáum frá tískusýningu sunnlenskra prjónakvenna sem Magnús Hlynur sótti og í Sportpakkanum verður rætt við fyrirliða nýkrýndra Íslandsmeistara Breiðabliks í fótbolta sem hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna eftir frábæran feril.
Þetta og margt fleira í opinni dagskrá á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.