Kröfulýsingarnar og upplýsingar um málsmeðferðina er að finna á vefsíðu óbyggðanefndar. Þar er meðal annars að finna samantekt lögmanna ríkisins um endurskoðunina.
Í tilkynningu um málið frá Óbyggðanefnd kemur fram að einnig hafi verið sett upp kortasjá um kröfurnar. Í henni er grá þekja yfir svæðum sem eru undanskilin kröfugerð ríkisins en blár borði er utan um eyjar og sker sem kröfur ríkisins taka til. Eyjar sem eru með bláan borða á kortinu eru til dæmis Surtsey og stór hluti Vestmannaeyja, utan Heimaeyjar.
Í tilkynningu segir að kortasjáin byggi, meðal annars, á bestu fyrirliggjandi upplýsingum um fjörumörk en í kröfugerð ríkisins sé gerður fyrirvari um að ekki sé útilokað að stórstraumsfjara nái lengra og að viðbótarupplýsingar þar að lútandi kunni að hafa áhrif á afmörkun. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðu nefndarinnar. sbr. nánari upplýsingar á vefsíðu óbyggðanefndar.

Í tilkynningu Óbyggðanefndar er málið rakið en fyrr á þessu ári lýsti fjármála- og efnahagsráðherra þjóðlendukröfum vegna eyja og skerja í febrúar 2024. Þá var landeigendum veittur frestur til að lýsa gagnkröfum. Í apríl tilkynnti ráðherra óbyggðanefnd að ákveðið hefði verið að taka kröfugerð ríkisins til endurskoðunar.
„Óbyggðanefnd hefur síðan þá framlengt kröfulýsingarfrest landeigenda nokkrum sinnum, m.a. í því skyni að tryggja landeigendum nægan tíma að því loknu til að bregðast við endurskoðuðum kröfum ríkisins og eftir atvikum lýsa gagnkröfum. Sá frestur hefur nú verið framlengdur enn frekar, þ.e. til 13. janúar 2025,“ segir í tilkynningunni.
Rannsókn hafin
Þá segir að rannsókn óbyggðanefndar á málunum sé hafin en hún feli í sér, meðal annars, umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu innan fyrrgreinds frests verður viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls.
Þá kemur fram að eftir að gagnaöflun lýkur og gögn rannsökuð úrskurði óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd verður kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda verða hins vegar úrskurðuð þjóðlendur. Ef óbein eignarréttindi reynast til staðar innan þjóðlendna verður jafnframt úrskurðað um þau.