Lífið

Lén skráð á laugar­dag ekki framboðslén

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stefán segir engan stjórnmálaflokk hafa komið að máli við sig. 
Stefán segir engan stjórnmálaflokk hafa komið að máli við sig.  Vísir/Vilhelm

Stefán Einar Stefánsson fjölmiðlamaður og fyrrverandi verkalýðsforingi segist ekki á leiðinni í framboð. Lénið stefaneinar.is var skráð á síðu ISNIC á laugardaginn var en ekki í þeim tilgangi að efna til framboðssíðu. 

Fyrir forsetakosningarnar í vor voru netverjar á varðbergi fyrir hugsanlegum framboðslénum. Áður en Halla Hrund Logadóttir og Katrín Jakobsdóttir höfðu tilkynnt um sín forsetaframboð vakti athygli að þær höfðu skömmu fyrir stofnað lén á sínum nöfnum. Eins og kunnugt er reyndust þær báðar að vera að undirbúa forsetaframboð. 

Á laugardaginn, degi áður en ríkisstjórnin sprakk var lénið stefaneinar.is skráð í vef ISNIC, sem er fyrirtækið sem sér um skráningu léna undir landsléninu „is.“. Athygli vakti að mögulega væri þarna framboðssíða fjölmiðlamannsins Stefáns Einars Stefánssonar í bígerð. 

Í samtali við fréttastofu segir Stefán svo ekki vera. 

„Ég var í gamla daga með síðu með þessu ágæta heiti. Ég hef í nokkurn tíma verið að velta fyrir mér að safna saman hugrenningum og pistlum sem ég hef verið að skrifa um ýmis málefni. Pólitík og málefni og annað í þeim dúr,“ segir Stefán. 

Þess vegna hafi hann ákveðið að endurnýja lénið. 

„Það hefur enginn beðið mig um að koma í framboð. Og það er ekkert prófkjör þannig að það yrði rosalegt ef maður færi að láta slag standa út í loftið.“

Hann sé aftur á móti að undirbúa mikilvæga umræðu á vettvangi Spursmála og Morgunblaðsins í aðdraganda kosninganna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×