„Þetta segir allt sem þarf að segja, geggjaður stuðningur,“ sagði Ísak eftir að stuðningsmaðurinn mikli Tómas Sveinsson tróð sér með trúðslátum inn í mynd og játaði ást sína á framherjanum eftir hávær fagnaðarlæti.
„Geggjuð liðsheildin í leiknum. Það var enginn sem gaf eftir. Bara geggjaður sigur,“ hélt Ísak svo áfram.
„Það var reynt allt til að passa upp á að enginn Bliki mætti. Meira að segja miðasalan og þetta kjaftæði, það stoppar ekki Kópavoginn, allir mættir hérna,“ sagði hann líka um stuðninginn sem liðið fékk.
Ísak fór hægt af stað á tímabilinu en hefur unnið sig frábærlega inn eftir það og kórónaði gott tímabil með tveimur mörkum í kvöld.
„Ég er bara mjög sáttur með mitt. Kem úr aðgerð í febrúar og vissi að það myndi taka mig tíma að komast í gang. Gerðist aðeins hægar en ég bjóst við en mjög ljúft að klára þetta svona,“ sagði Ísak að lokum.