Erlendir fjárfestar buðu nýlega margfalt markaðsverð fyrir jörð vegna vatnsauðlinda og ásældust fjölda annarra jarða í sömu sveitinni að sögn bónda. Orkustofnun hefur þurft að bregðast við ofnotkun vatns vegna aukins ágangs fyrirtækja í auðlindina.
Þá verðum við í beinni útsendingu frá Karphúsinu, þar sem læknar og ríkið hafa boðað að skrifað verði undir kjarasamning þegar líður á kvöldið. Ekkert virðist hins vegar þokast í viðræðum kennara og sveitarfélaga. Langþreyttir aðstandendur verkfallsbarna verða til viðtals í beinni .
Ekkert nema eyðileggingin blasir við þúsundum Líbana sem snúið hafa heim til sín eftir að samkomulag náðist um vopnahlé Ísraela og Hezbollah. Við heyrum í Líbönum sem fagna vopnahléinu, þrátt fyrir að heimili þeirra séu rústir einar.
Kristján Már Unnarsson færir okkur nýjustu tíðindi af Hvammsvirkjun. Inntakslón sem myndast vegna hinnar fyrirhuguðu virkjunar veldur því að færa þarf Þjórsárdalsveg á um fimm kílómetra löngum kafla. Ný veglína er sýnd á myndbandi sem Landsvirkjun og Vegagerðin hafa kynnt íbúum nærsveita.
Haukum var í dag dæmdur ósigur gegn ÍBV í bikarkeppninni í handbolta vegna vanda við leikskýrslugerð. Haukamenn fengu tíðindin þegar þeir lentu í Munchen í morgun. Okkar maður Valur Páll fer yfir málið frá Munchen. Og í Íslandi í dag fer Sindri Sindrason í morgunkaffi til Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins.