Að sögn Stefáns Más Símonarsonar, framkvæmdastjóra Nesbúeggja, er nú genginn í garð stærsti neyslutími eggja hér á landi á neytendamarkaði. Viðvarandi eggjaskortur hefur verið á landinu allt árið. Stefán ræddi málið við Reykjavík síðdegis í dag.
Tollar á innfluttum eggjum
Hann segist ekki geta lagt mat á það hvort þörf hafi verið á þessum innflutningi á eggjum.
„Auðvitað get ég ekki stjórnað því, það vorum ekki við sem fluttum þau inn. Það er fullkomlega leyfilegt en það eru vissulega tollar á þeim.“
Ekki er útlit fyrir að bót verði á eggjaskortinum hér á landi í bili en verslanir hafa óskað eftir undanþágu frá tollkvóta svo hægt sé að flytja inn nóg af eggjum fyrir jólabaksturinn. Fréttastofa fjallaði um málið í nóvember.
Eldsvoði hafi áhrif í fimm mánuði
Hann segir greinina alla vonast til þess að geta annað eftirspurn hér á landi fljótlega.
„Í gamla daga voru nóvember og desember alltaf langstærstu mánuðir ársins. Svo með auknum fjölda ferðamanna hefur það nú breyst svo að heildarmarkaðurinn er stærri frá og með júlí og fram eftir hausti. Það eru þá hótel og veitingahús.“
Í nóvember kviknaði í varphúsi eggjabús Nesbús. Tjónið var gífurlegt en uppbygging á sambærilegu húsi kostar um 150 milljónir en ekki er búið að leggja mat á heildartjónið. Um sex þúsund hænsni drápust í eldsvoðanum. Um er að ræða mikið áfall fyrir rekstur Nesbús.
„Því miður þá lentum við í því óhappi og misstum eitt af varphúsunum okkar úr framleiðslu og misstum fuglinn sem í því var.“
Hefur það áhrif á framboðið núna á eggjum?
„Ekki í augnablikinu nei, þetta voru unghænur sem voru ekki komnar í varp en hefðu núna seinni hluta desembers hefði farið að týnast eitthvað úr þeim í framhaldi af því hefði þetta farið að skipta máli. Við ætlum að reyna að hafa hraðar hendur og vera komin með nýtt hús í staðinn núna í vor. Þetta eru þá fimm mánuðir sem þetta hefur áhrif á okkur.“