Veðurstofan segir líkur aukast á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi þegar jafn mikið magn af kviku hefur safnast undir Svartsengi og fór þaðan í kvikuhlaupinu og eldgosinu 20. nóvember. Líkanreikningar sýni að þetta magn sé á bilinu 12 til 15 milljónir rúmmetra.
Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða og undanfarið megi gera ráð fyrir því að rúmmál kviku undir Svartsengi nái 12 milljónum rúmmetra í lok janúar, en í fyrstu vikunni í febrúar verði það orðið um 13.5 milljónir rúmmetra.
Svipaður hraði og fyrir síðasta eldgos
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að samkvæmt líkanreikningum sem byggja á nýjustu aflögunargögnum er kvikuinnflæðið nú rúmlega þrír m3/s, sem sé svipaður hraði og fyrir síðasta eldgos. Miðað við þann hraða megi því gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast í lok janúar.
Þá segir að líkönin byggi á áætluðu kvikuinnflæði á hverjum tíma og litlar breytingar á því flæði hafi áhrif á matið á mögulegum tímasetningum næsta eldgoss.
Í tilkynningu kemur fram að hættumat sem gert var í desember hafi verið uppfært og gildi að óbreyttu til 14. janúar 2025. Helsta breytingin sé á svæði 6 þar sem heildarhætta er nú metin nokkur (gul) en var áður metin töluverð (appelsínugul). Heildarhætta á svæði 6 er nú metin minni vegna þess að hætta á hraunflæði á svæðinu hefur lækkað.
Þó er tekið fram að þótt svo að hætta á hraunflæði sé nú minni en áður sé hraunbreiðan enn heit og hættuleg göngufólki.

Lítil skjálftavirkni við Sundhnúksgígaröð
Í tilkynningu Veðurstofunnar segir einnig að afar lítil jarðskjálftavirkni hafi verið á Sundhnúksgígaröðinni frá því að síðasta eldgosi lauk 8. desember 2024.
Á öðrum nærliggjandi svæðum hafi þó verið nokkur jarðskjálftavirkni, en um 200 jarðskjálftar, þar af tveir yfir M3 að stærð, mældust í hrinu dagana 29. – 31. desember 2024 nærri Eldey á Reykjaneshrygg. Jarðskjálftahrinur nærri Eldey hafa verið algengar undanfarin ár, en hátt í 60 jarðskjálftar yfir M3 að stærð hafa mælst þar síðustu fjögur árin samkvæmt tilkynningunni.
„Áfram mælast stöku skjálftar þar en hrinunni er að mestu lokið. Áfram mælast reglulega jarðskjálftar í vestanverðu Fagradalsfjalli. Þar hafa rúmlega 60 smáskjálftar mælst síðasta mánuðinn, flestir á um 6-8 km dýpi,“ segir að lokum.