Innlent

Utan­kjör­fundar­at­kvæði dagaði uppi á bæjar­skrif­stofum Kópa­vogs

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Atkvæðin uppgötvuðust ekki fyrr en eftir kosningarnar.
Atkvæðin uppgötvuðust ekki fyrr en eftir kosningarnar. Vísir/Vilhelm

Póstsending sem innihélt tólf til fimmtán utankjörfundaratkvæði fór framhjá starfsmönnum afgreiðslu Kópavogsbæjar með þeim afleiðingum að atkvæðin voru ekki talin.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Atkvæðin bárust á bæjarskrifstofu Kópavogs daginn fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember síðastliðinn en að sögn Pálma Þórs Mássonar, bæjarritara Kópavogsbæjar, urðu starfsmenn ekki póstsendingarinnar varir fyrr en mánudaginn 2. desember þegar ný póstsending var móttekin.

„Atkvæðaumslögin sem um ræðir eru mörg hver að koma erlendis frá, sem og utan af landi. Til þess að sambærilegt tilvik geti ekki komið fyrir aftur hefur fyrirkomulagi móttöku póstsendinga til þjónustuvers Kópavogsbæjar verið breytt. Landskjörstjórn er upplýst um málið,“ segir í skriflegu svari Pálma við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Í blaðinu er fullyrt að hin ótöldu atkvæði hefðu getað haft áhrif á það hver fékk síðasta kjördæmakosna þingsætið í Suðvesturkjördæmi og úthlutun uppbótaþingsæta. 

Þá segir að gera megi ráð fyrir að landskjörstjórn taki málið upp en óvíst sé hvort það verði gert í álitsgerð kjörstjórnar til Alþingis eða í sérstöku erindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×