Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að að auki hafi sautján skjálftar yfir þremur að stærð verið skráðir, þar af tveir um eða yfir fjórum að stærð.
Hrinan er í norðvestanverðri öskjunni og þykir nokkuð óvenjuleg og munu sérfræðingar Veðurstofunnar áfram fylgjast með gangi mála.
Ríkislögreglustjóri ákvað í samráði við Lögreglustjórana á Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi að lýsa yfir óvissustigi Almannavarna vegna skjálftavirkninnar í Bárðarbungu um hádegisbil í gær.
„Það að lýsa yfir óvissustigi þýðir að eftirlit er haft með atburðarrás sem gæti á síðari stigum leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað,“ sagði í tilkynningu.