Lífið

Flug­fé­lag bregst við vegna kómískrar frá­sagnar Katrínar

Svava Marín Óskarsdóttir og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Katrín Halldóra lýsir Íslendinganýlendunni Tenerife sem hræðilegasta stað á jörðu.
Katrín Halldóra lýsir Íslendinganýlendunni Tenerife sem hræðilegasta stað á jörðu. Aðsent

Leik- og söngkonan Katrína Halldóra Sigurðardóttir vakti mikla athygli í vikunni þegar hún lýsti kómískri ferð fjölskyldu sinnar til Tenerife hér um árið þar sem karíókíbarir og svefnlausar lituðu ferðina. Hún sagði upplifunina af ferðalaginu efni í gott leikrit.

Katrín Halldóra ætlar í langt og gott frí eftir mikla vinnutörn. Hún ætlar þó alls ekki til Tenerife og sagði í viðtali við Elísabetu Gunnarsdóttur, í hlaðvarpsþættinum Morgunbollinn með Elísabetu Gunnars, hafa slæma reynslu af eyjunni. Í staðinn langar hana í ferðalag um Ítalíu eða Spán.

Svona lýsti Katrín meðal annars upplifun sinni á eyjunni: „Algjört ofmat. Þetta er hræðilegasti staður á jörðu. Ég fór til Tenerife um páskana 2022 og ég bíð þess ekki bætur. Þetta er hræðilegasti staður á jörð. Veistu það, ég ætla aldrei aftur að fara þarna.“

Orð Katrínar dæmi sig sjálf

Mikil umræða myndaðist á samfélagsmiðlum í kjölfarið þar sem fólk var ýmist móðgaðir eða sammála og tengdu við upplifun Katrínar. Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife, er ein þeirra sem virðist hafa tekið ummælum Katrínar um nærri sér. 

Í færslu Önnu á Facebook segir hún meðal annars að eyjan hafi mun meira upp á að bjóða en sól, sand og diskótek, það sé aðeins lítill hluti af stóru sveitarfélagi.

„Það er vissulega ágætt fyrir þá sem koma hingað til að skemmta sér og sleikja sólina í skamman tíma, en eyjan er bara svo margt fleira. Útum alla eyjuna eru lítil þorp og bæir sem gaman er að heimsækja, gamli bærinn í La Laguna, höfuðborgin Santa Cruz, þjóðgarðurinn á hálendinu sem er að miklu leyti í yfir 2000 metra hæð, regnskógurinn nyrst á eyjunni, fiðrildasafnið og gamla drekatréð í Icod de los Vinos, píramídarnir í Güimar, litlu fiskimannaþorpin og náttúrulaugar sem eru víða.

En ég ætla samt ekki að hafa fleiri orð um orð hennar. Þau dæma sig sjálf rétt eins og orð Seðlabankastjóra um tanaðar táneglur á Tene,“ skrifar Anna.

Geti sennilega ekki látið sjá sig í sundi næstu mánuði

Egill Helgason menningarviti blandaði sér í umræðuna og skrifaði færslu á Facebook sem hefur vakið töluverð viðbrögð.

Egill Helgason furðar sig á viðbrögðunum.Vísir/Vilhelm

„Þekkt leikkona talaði illa um Tene í viðtali, sagði það skelfilegan stað. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Það var eins og hún hefði móðgað íslenskt sveitarfélag eða hrepp – já, þess vegna bara Akureyri – slík er viðkvæmnin,“ segir Egill í færslunni.

Fjölmargir tóku til máls á þræðinum við færsluna. Óttar Proppé, rokkari og fyrrverandi pólitíkus, sagði það lýsandi fyrir íslenskt samfélag að þegar einhver lýsti skoðun sem væri á skjön við normið færi maður strax að pæla í því hvernig viðkomandi myndi reiða af í kjölfarið.

Óttar Proppé segir viðtalið við Katrínu hafa verið hressandi.

„Mér fannst þetta hressandi og skemmtilegt viðtal við frænku. En var strax hugsað til þess að nú gæti hún ekki látið sjá sig í sundi, á facebook eða kringlunni næstu 6-7 mánuði og hvað það væri mikið óhagræði fyrir aktívan þjóðfélagsþegn. Ekki það að ef einhverjum dirfist að tala illa um Manhattan, Beirut eða Hafnir á suðurnesjum verður mér að mæta…“ skrifaði Óttar Proppé, rokkari og fyrrverandi pólitíkus.

Stefán Pálsson sagnfræðispelúlant rifjaði upp Raufarhafnar-skandalinn sem varð um árið:

„Rifjast þá upp þegar Leikhópnum Lottu var nánast slaufað eftir að einn leikarinn álpaðist til að kalla Kópasker (eða var það Raufarhöfn) guðsvolaðan stað á netinu.“

Frítt frí fyrir alvöru úttekt

Ummælin vakti mikla athygli þar á meðal hjá forsvarsmönnum Play. Birgir Olgeirsson upplýsingafulltrúi félagsins hafði meðal annars þetta að segja:

„Þetta var svo hressileg frásögn hjá Katrínu og hún er greinilega óhrædd við að segja sína skoðun. Við ákváðum þess vegna að bjóða henni að fara á aðra staði innan leiðakerfis PLAY til að fá alvöru úttekt frá henni,“ segir Birgir í samtali við Vísi.

Vísi er ekki kunnugt um það hvort Katrín Halldóra hafi þegið boð flugfélagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.