Viðskipti innlent

Fimmti hver leigjandi vildi heldur búa annars staðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir leigjendur virðast frekar vilja búa annars staðar.
Margir leigjendur virðast frekar vilja búa annars staðar.

Fimmti hver leigjandi á leigumarkaði býr í hverfi eða á stað þar sem viðkomandi myndi helst ekki kjósa að búa á. Meðal leigjenda með tvö börn eða fleiri er hlutfallið 30 prósent.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þar segir að meðal húseigenda sé hlutfallið aðeins sjö prósent, sem bendi til þess að framboð á hentugu leiguhúsnæði sé mun takmarkaðra en framboð á húsnæði til eignar. Um helmingur leigjenda telur líklegt að hann skipti um húsnæði á næstu tólf mánuðum.

Kaupþrýstingur er enn mikill á fasteignamarkaði þrátt fyrir að margar íbúðir séu til sölu, segir í samantekt um mánaðarskýrsluna. Tæplega 900 kaupsamningum var þinglýst í nóvember, samanborið við 950 í október.

Um 15,5 prósent íbúða seldust yfir ásettu verði í mánuðinum en hlutfallið var um tíu prósent árið 2019 þegar framboð var álíka mikið og nú.

Líkt og greint var frá í síðustu mánaðarskýrslu er áætlað að á landinu séu yfir 10 þúsund tómar íbúðir, það er að segja íbúðir þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um fasta búsetu. HMS er komin í samstarf við 25 sveitarfélög til að fá betri yfirsýn yfir umrætt húsnæði og benda fyrstu niðurstöður til þess að stór hluti íbúðanna sé nýttur sem orlofshús eða í gististarfsemi.

„Tæplega þrjár af hverjum fjórum íbúðum sem HMS metur sem tómar í Dalabyggð eru nýttar sem orlofshús, en í Grýtubakkahreppi er tæplega helmingur slíkra íbúða nýttur sem orlofshús. Orlofshús nema aftur á móti fimmtungi af metnum heildarfjölda tómra íbúða í Langanesbyggð og um þriðjungur í Mýrdalshreppi,“ segir í samantekt HMS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×