Umræðan

Styrkjum inn­viði okkar mikil­vægustu at­vinnu­greinar

Kristófer Oliversson skrifar

Ferðaþjónustan er mikilvægasta atvinnugrein landsins. Hún skapar mestar gjaldeyristekjur, skapar flest störfin og hún snertir hagsmuni fjölda fólks jafnt til sjávar og sveita. Greinin hefur verið í stafni efnahagsuppbyggingar á Íslandi síðasta áratug. Starfsskilyrði ferðaþjónustunnar hafa áhrif á tugþúsundir landsmanna um allt land. Mikilvægt er að ný stjórnvöld eigi gott samráð við starfsgreinina þegar kemur að mótun umhverfis hennar á næstu árum.

Ferðaþjónustan skapaði þriðjung nýrra starfa í landinu á árunum 2010-2019 og nærri helming allra starfa á landsbyggðinni á því tímabili. Á sama tímabili nærri þrefaldaðist vægi hennar í landsframleiðslu og er hún nú stærsta atvinnugreinin, en hlutur hennar nemur rúmlega 8% af vergri landsframleiðslu meðan sjávarútvegur telur 6%. Þegar horft er til gjaldeyristekna nam hlutur ferðaþjónustunnar rúmum þriðjungi í árslok 2023 á meðan hlutur sjávarútvegs og framleiðslu iðnaðarvara, þ.m.t. á áli, nemur um 20%-24% í hvorri grein fyrir sig (sbr. myndir 1 og 2). Miklu skiptur því fyrir land og þjóð hver starfsskilyrði greinarinnar verða til framtíðar.

Mynd 1.

Rammi til stjórnunar til staðar

Verðmætasköpun í ferðaþjónustu byggir á auðlindanýtingu þar sem aðgengi að náttúru Íslands er grunnur verðmætasköpunar. Þeirri nýtingu þarf að stjórna á hverjum tíma með það að marki að greinin verði í senn sjálfbær og arðbær. Auðlindastjórnun byggir ávallt á bestu fáanlegri þekkingu og því þarf í senn að efla rannsóknir og laga stöðugt þau tæki sem til staðar eru til að stýra álagi, afrakstri og aðgangi.

Mynd 2.

Á síðasta ári samþykkti Alþingi þvert á alla flokka ferðamálstefnu og er það sá rammi sem greininni er settur í dag og nýtist vel til næstu framtíðar. Ný ríkisstjórn undir forystu Kristrúnar Frostadóttur leggur í stefnuyfirlýsingu sinni talsverða áherslu á ferðaþjónustu. Þar segir að stefnt sé að mótun auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld og að stuðla eigi að verðmætasköpun, öryggi og álagsstýringu í ferðaþjónustu. Sérstaklega segir að þar sem vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í eigu þjóðarinnar hyggist ríkisstjórnin á grunni fyrirliggjandi ferðamálastefnu taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Í stefnuyfirlýsingunni kemur fram að á meðan unnið sé að útfærslu þessa verði skoðað að innheimta komugjöld en slík gjöld yrðu þó ekki í takti við þá ferðamálastefnu sem samþykkt var einróma á Alþingi í fyrrasumar.

Samráð um stýringu sem eykur verðmætin

Mótun auðlindastefnu fyrir mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar skiptir miklu. Slík stefna hlýtur ávallt að byggja á sjálfbærni með áherslu á aukna verðmætasköpun og líkt og fram kemur í núverandi stefnu stjórnvalda að jafnvægis sé gætt á milli efnahags, samfélags, umhverfis og gesta. Varast ber að slík stefna horfi einvörðungu á þörf ríkissjóðs fyrir beinar tekjur af greininni á hverjum tíma. Rétt er að hafa í huga að ríkissjóður hefur miklar tekjur af ferðaþjónustu, enda er hún langfjölmennasta starfsgrein landsins og fyrir liggur að skattspor hennar nam 151 milljarði króna á árinu 2023. Því blasir við að aukin verðmætasköpun í greininni er tryggari leið til tekjuöflunar ríkissjóðs en frekari gjöld og álögur sem tefja vöxt og skila litlu til samfélagsins. Annað mál er að gjöld geta verið tæki til að stjórna álagi og nýtingu auðlindar og gagnast þannig við að auka verðmætasköpun i greininni til framtíðar.

Varast ber að slík auðlindastefna horfi einvörðungu á þörf ríkissjóðs fyrir beinar tekjur af greininni á hverjum tíma.

Styrkjum innviði greinarinnar

Ferðaþjónustan er ung atvinnugrein hér á landi og óhörnuð, a.m.k. í samanburði við sjávarútveg og stóriðju, en engu að síður er hún orðin mikilvægust þeirra allra. Innviðir greinarinnar hafa ekki náð fullum styrk og þá þarf að styrkja, ekki einungis í þágu ferðaþjónustunnar heldur samfélagsins alls. Rannsóknir á náttúru og samfélagi þarf að efla og þá um leið skilning á áhrifum starfseminnar á umhverfi, hagkerfi og byggðir landsins og þá þarf að þróa stjórnkerfi sem byggir á vísindum og samráði og skapar stöðugleika og aukinn fyrirsjáanleika í greininni. Það mun styrkja hérlend ferðaþjónustufyrirtæki enn frekar í að halda áfram að auka verðmætasköpun. Í ljósi stöðu ferðaþjónustu í íslensku efnahagslífi er fátt sem getur haft meiri jákvæð áhrif á hag almennings í landinu en aukinn styrkur þeirrar greinar. Ég held að ég tali fyrir hönd allra í ferðaþjónustunni að það mun ekki standa á neinu okkar að vinna með nýrri ríkisstjórn við að þróa áfram umgjörð greinarinnar og efla mikilvæga innviði hennar. Við vonumst eftir góðu samráði stjórnvalda við greinina um framtíðaruppbyggingu hennar og að framtíðarávinningur, en ekki skammtímasjónarmið, ráði för.

Höfundur er formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.




Umræðan

Sjá meira


×