Konur eru í meirihluta þeirra sem hafa náð 100 ára aldri eða alls 32 á meðan það eru tólf karlar sem eru 100 ára og eldri.
Alls eru 24 einstaklingur 100 ára, þar af 18 konur og sex karlar. Þeir einstaklingar sem eru yfir 100 ára eru alls 14 konur en sex karlar. Ef hvert ár er skoðað fyrir sig eru fimm konur og þrír karlar 101 árs, fjórar konur og þrír karlar 102 ára, ein kona 103 ára og tvær konur 104 ára. Ein kona er 105 ára og svo ein 107 ára.

Í samantekt Þjóðskrár má sjá að í aldursflokki fyrir neðan 95 til 99 ára eru 145 karlar og 347 konur. Fyrir neðan það, í aldursflokki 90 til 94 ára, eru 756 karlar og 1.222 konur. Í öllum þessum aldursflokkum eru konur í miklu meirihluta. Það er svo í aldursflokkunum fyrir neðan, 85 til 89 ára, þar sem staðan er jafnari ef litið er til kynja. Þar eru lifandi 1.841 karl og 2.335 konur.
Í samantekt Þjóðskrár er einnig hægt að sjá fjölda einstaklinga sem eru 100 ára og eldri frá árinu 2005. Konurnar hafa flestar verið lifandi 43 árin 2011 og 2020. Karlarnir voru flestir árið 2016 þegar þeir voru 16 sem voru 100 ára og eldri.

Þá má einnig í samantektinni sjá að enginn á þessum aldri er búsettur á Vestfjörðum og Austurlandi. Á Norðvesturlandi er einn karl, tvær konur á Norðausturlandi, einn karl og ein kona á Suðurlandi og sama á Suðurnesjum. Á Vesturlandi er einn karl. Á höfuðborgarsvæðinu eru svo átta karlar og 28 konur.