Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjórinn í Fjallabyggð, segir rjómablíðu vera í sveitarfélaginu eins og er, snjór falli beint niður en von sé á öðrum hvelli fljótlega.
Veðrið verra í nótt en þegar viðvörunin var í gildi
Fáir, ef nokkur, fóru varhluta af óveðrinu sem skall á síðdegis í gær. Siglfirðingar og Ólafsfirðingar fóru einna verst út úr illviðrinu í gær og í nótt. Rauð veðurviðvörun tók aftur gildi klukkan 10 og viðbragðsaðilar eru í startholunum.

„Þetta var löng nótt. Það sem er merkilegt við þetta er að veðrið var eiginlega verra í nótt en þegar rauða viðvörunin var í gildi í gær hér á okkar svæði og viðbragðsaðilar voru að störfum til klukkan að verða fimm í morgun. Björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið, bæði á Ólafsfirði og Siglufirði,“ segir Jóhann.
Kirkjudyrnar fuku aftur upp
Jóhann segir að talsverðar skemmdir hafi orðið á Siglufirði, sér í lagi vegna tveggja stórra þaka af iðnaðarhúsum sem losnuðu og fuku um bæinn. Þá hafi hurðin að Siglufjarðarkirkju sprungið upp. Það gerðist einnig í aftakaveðri sem gekk yfir bæinn í mars árið 2023. Þá þurfti „blankur“ söfnuðurinn að fjárfesta í nýrri hurð.
„Þetta var hluti af þeim verkum sem við sinntum og vinnan okkar í nótt var í rauninni aðallega að fergja þakplötur sem höfðu losnað af þessum tveimur iðnaðarhúsum og fokið í gegnum bæinn. Það skapaðist töluverð hætta þegar þetta gerðist.“

Talsvert tjón
Jóhann segir að ljóst að telsvert tjón hafi orðið í sveitarfélaginu en þó eigi eftir að meta umfangið. Verktakar séu að tryggja það sem tryggt verður áður en óveður skellur aftur á.
„Það er svo sem ekki búið að meta heildartjónið en ég myndi telja að það væri umtalsvert.“