Í fyrra voru flutt inn 630 tonn af flugeldum. Fjórir aðilar annast innflutning, Landsbjörg, sem flytur inn meirihlutann, og svo þrjú einkafyrirtæki. Jafnan selst ekki hluti af þeim flugeldum sem fluttir eru inn til landsins um áramótin og eru þeir geymdir til næstu áramóta. Þá þarf að geyma þá í tryggum geymslum. Landsbjörg geymir þrjú hundruð bretti í húsnæði á leyndum stað á höfuðborgarsvæðinu.
Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir einhver hinna fyrirtækjanna nýta sér eigið sameiginlegt svæði.
„Þetta er geymslusvæði utandyra í gámum sem er hannað meðal annars fyrir svona geymslu,“ segir Aldís. „Það er búið að leggja fram hönnun með ákveðnum varúðarráðstöfunum um fjarlægðir og öryggisvarnir gagnvart öðrum svæðum. Þar er tekið á magni. Þannig við erum almennt ekki með áhyggjur af þessu svo lengi sem þessari hönnun er fylgt.“
Treysta á að fyrirtæki fari eftir reglum
Slökkviliðið hefur ekki sérstakt eftirlit með afgangsflugeldum en vita um geymslustaðina. Treyst er á að geymsla fari fram þar og ekki hefur borist ábending um annað.
„Það er auðvitað í kringum flugeldasölutímabilið, þá kemur fyrir að einkaaðilar séu að kaupa mikið og geyma heima hjá sér, í bílskúrnum og slíkt. Það er ekkert eftirlit af okkar hálfu með því,“ segir Aldís.