Birgir Jóhann Birgisson, bingóstjóri og starfsmaður Flokks fólksins, segir í samtali við fréttastofu að bingóið sé vikulegt og fyrst og fremst hugsað fyrir eldri konur í grasrót flokksins.

Birgir bingóstjóri segir umfjöllun um flokkinn í fjölmiðlum síðustu daga engin áhrif hafa á bingóið. Flokkurinn standi sína plikt gagnvart grasrótinni.
Bingóið sé ekki til hagnaðar heldur skemmtunar. Vanalega mæti á bilinu sjö til níu eldri konur í bingóið.
„Við erum bara að reyna að hafa svolítið gaman stundum. Grasrótin þarf að nærast og það er gert svona,“ segir hann.
Þrátt fyrir það eru allir hjartanlega velkomnir á bingóið en spjaldið kostar fimm hundruð krónur.
Lengd bingósins velti á spilurum
„Það eru fimmþúsund krónur í verðlaun í lokin en það eru þúsund krónur í verðlaun ef þú vinnur eitt spjald,“ segir Birgir um verðlaunin.
Spilaðar verða nokkrar umferðir en Birgir segir að það velti dálítið á stemmingunni og þoli þátttakenda hverju sinni hversu margar þær verði.
„Við tökum fyrst H, síðan zetuna, lítinn hring og allt spjaldið,“ segir Birgir. „Allavega fjórar umferðir sem við tökum en það er svolítið undir konunum komið og hvernig stemmingin er.“
Á boðstólnum verður kaffi en svo koma þátttakendur stundum með veitingar að heiman. Að sögn Birgis ætlar ein konan að koma með eggjasalat í dag og verður boðið upp á Ritz-kex með því.