Íslenski boltinn

„Við­eig­andi að fagna komu hennar með marki“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Höskuldur steig á punktinn af föðurlegri ró.
Höskuldur steig á punktinn af föðurlegri ró. vísir / diego

Nýbakaði faðirinn Höskuldur Gunnlaugsson leiddi Breiðablik út á völl sem fyrirliði og skoraði fyrsta mark tímabilsins í 2-0 sigri gegn Aftureldingu.

Höskuldur mætti illa sofinn til leiks af ánægjulegri ástæðu. Hann var á fæðingardeildinni í nótt og fagnaði komu fyrsta barns síns, nokkrum klukkutímum áður en hann fagnaði því að hafa skorað fyrsta mark tímabilsins í Bestu deildinni.

„Það er hárrétt, lítil prinsessa sem kom í heiminn rétt eftir miðnætti. Mjög viðeigandi að fagna komu hennar með marki og góðum opnunarleik.“

Um leikinn sjálfan var Höskuldur sammála því að Blikar hafi ekki verið eins beittir í seinni hálfleik og þeim fyrri. Frammistaðan engu að síðar mjög öflug og öruggur sigur skilaði sér.

„Bara hrós á þá [Aftureldingu], þeir seldu sig dýrt, komu inn í seinni hálfleik með aðeins öðruvísi leikplan sem gerði það að verkum að pressan okkar var ekki alveg eins kröftug. Þeir létu okkur hlaupa og drógu úr okkur þannig, en heilt yfir mjög fagmannlegt og gott að fá sigur í fyrsta leik.“

„Mér fannst við bara vera í góðum takti og hefðum klárlega getað skorað fleiri í fyrri hálfleik. Þeir gerðu vel með stóru tánni að pota boltanum framhjá. Öflug frammistaða heilt yfir, datt kannski aðeins dampurinn í seinni hálfleik en ég ætla líka að gefa þeim kredit, mér fannst þeir stíga upp. En markvarslan hjá Antoni í lokin sýndi að hann hafði haft lítið að gera, fókusinn var bara þannig að allir voru með grunnvinnuna á hreinu“ sagði Höskuldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×