Upp­gjörið: Víkingur - KA 4-0 | Meiðslum hrjáðir Víkingar léku KA-menn grátt

Hjörvar Ólafsson skrifar
Víkingar fagna marki Valdimar Þórs Ingimundarsonar. 
Víkingar fagna marki Valdimar Þórs Ingimundarsonar.  Vísir/Anton Brink

Víkingur vann afar sannfærandi 4-0 sigur þegar liðið fékk KA í heimsókn á Víkingsvöll í Fossvogi í annarri umferð Bestu-deildar karla í fótbolta í kvöld. Víkingur er þar af leiðandi með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. 

Gylfi Þór Sigurðsson tók út leikbann í þessum leik eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið í sigrinum á móti ÍBV í fyrstu umferðinni en í þeim leik sleit Aron Elís Þrándarson krossband. Þá eru Gunnar Vatnhamar, Oliver Ekroth, Pablo Punyed og Niko Hansen sömuleiðis á meiðslalistanum hjá Víkingum.

Róbert Orri Þorkelsson er svo nýstiginn upp úr meiðslum og sat allan tímann á varamannabekknum í þessum leik. 

Víkingur lét meiðslavandræðin aftur á móti ekki á sig fá og heimamenn fengu óskabyrjun í leiknum í kvöld en eftir þriggja mínútna leik var Valdimar Þór Ingimundarson búinn að koma Fossvogspiltum yfir. Valdimar Þór tvöfaldaði siðan forystu Víkings eftir tæplega stundarfjórðungs leik.

Valdimar Þór fékk þá snyrtilega stungusendingu frá Viktori Örlygi Andraysni og kláraði færið af stakri prýði. Skömmu siðar stífnaði Valdimar Þór aftan í læri og neyddist til þess að fara af velli. Valdimar Þór bætist því á langan meiðslalista Víkings.

Karl Friðleifur Gunnarsson kampakátur með markið sitt. Vísir/Anton Brink

Markaregnið hélt svo áfram í nepjunni á heimavelli hamingjunnar. Karl Friðleifur Gunnarsson lét skotið ríða af þegar hann átti um það bil 25 metra í markið. Karl Friðleifur setti boltann í nærhornið en Steinþór Már Auðunsson hefði líklega viljað gera betur í því marki.

Þegar leikurinn var rúmlega hálftíma gamann bættist grátt ofan á svart hjá gestunum að norðan. Viðar Örn Kjartansson, framherji KA-liðsins, varð þá fyrir meiðslum og þurfti að yfirgefa völlinn vegna þess hnjasks.

Staðan í hálfleik 3-0 Víkingum í vil og heimamenn svifu í draumalandi inn í búningsklefa sinn. Víkingar höfðu öll tök á spilinu á miðsvæðinu og fundu hvað eftir annað svæði þar til þess að fá boltann og herja á berskjaldaða vörn KA-liðsins. 

Hafi Hallgrímur Jónasson náð að blása einhvern baráttuanda í brjóst sinna leikmanna í hálfleiksræðu sinni þá hvarf öll von um endurkomu eftir tæplega klukkutíma leik. Stígur Diljan Þórðarson setti þá pressu á Hans Viktor Guðmundsson og náði að pota boltanum innfyrir á Helga Guðjónsson sem kláraði færið af stakri prýði.

Lokatölur 4-0 Víkingi í vil og Fossvogspiltar eru komnir með sex mörk á töfluna eftir fyrstu tvo leiki sína í Bestu-deildinni og hafa ekki enn sem komið er þurft að sækja boltann í eigið net. 

Sölvi Geir Ottesen á hliðarlínunni. Vísir/Anton Brink

Sölvi Geir: Settum tóninn strax í upphafi

„Þetta var virkilega öflugur sigur. Við byrjuðum leikinn sterkt og komum af krafti inn í leikinn. Við náðum að skora góð mörk og sigldum svo góðum sigri heim. 

Við mættum þeim líka þegar það myndaðist smá hiti í leiknum í baráttunni og þetta var bara heilt yfir flott frammistaða,“ sagði Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkings. 

„Við héldum dampi allan leikinn. Þeir sem komu inná skilaði góðu vinnuframlagi og voru hættulegir fram á við. Við höfum verið að lenda í miklum meiðslum upp á síðkastið og það sýnir sig í dag hvað leikmannahópurinn er breiður. Þeir sem komu inn í byrjunarliðið og af bekknum spiluðu mjög vel,“ sagði Sölvi Geir enn fremur. 

„Valdimar Þór er að glíma við vöðvameiðsli og svo snéri Tarik sig hérna undir lok leiksins. Ég held samt að Tarki sé ekki mikið meiddur en við sjáum til. Þetta er komið gott af meiðslum fyrir minn smekk og vonandi förum við að vera búnir með kvótann þar í bili,“ sagði hann um stöðu mála hjá liði sínu. 

Hallgrímur: Tilfinningin skrýtin eftir þennan leik

„Þetta var bara verðskuldaður sigur hjá Víkingi. Mér fannst reyndar fyrri hálfleikurinn stórfurðulegur. Það var mín tilfinning að við værum fínir á boltann en þrjú fyrstu skotin þeirra fóru í markið. Við vorum að ná að spila boltanum vel á milli línanna og fá fín færi. Mörkin komu kannski ekki upp úr engu en við vorum bara skyndilega komnir 3-0 í leik sem var bara í jafnvægi,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.

„Mér fannst leikurinn þróast furðulega og við gáfum þeim of auðveld mörk. Það er leiðinlegt að við höfum ekki náð að búa til alvöru leik hérna. Þetta er hins vegar enginn heimsendir. Við bara töpum á erfiðum útivelli og áfram gakk,“ sagði Hallgrímru þar að auki. 

KA-menn hafa verið orðaðir við Marcel Römer, fyrirliða Lyngby undanfarið. Hallgrímur staðfesti að norðanmenn séu í viðræðum við þennan varnarsinnaða miðjumann: „Það er ekkert launungarmál að við erum að leita að liðsstyrk. Römer er einn af þeim leikmönnum sem við erum að skoða og við höfum rætt við hann. 

Það er hins vegar ekkert klappað og klárt með félagaskipt og þú verður að ræða við Sævar um það hvernig viðræðurnar ganga,“ sagði hann um mögulegan liðsstyrk inn á miðsvæðið. 

Hallgrímur Jónasson var sáttur við margt í spilamennsku sinna mana. Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Annað mark Valdimars Þórs í leiknum var einkar snoturt en Viktor Örlygur splundrarði varnarlínu KA-manna með sendingu sinni og slútt Valdimars var huggulegt. Fjórða mark Víkings var svo í takt við spilamennsku KA í leiknum sem var stirð og hæg.  

Stjörnur og skúrkar

Valdimar Þór var frábær fyrsta korterið og synd að hann hafi þurft að stíga af sviðinu. Viktor Örlygur var góður á vinstri kantinum og Daníel Hafsteinsson reyndist sínum gömlu félögum einkar erfiður inni á miðsvæðinu.

Daníel Hafsteinsson var eins og kóngur í ríki sínu inni á miðjunni. Vísir/Anton Brink

Sveinn Gísli Þorkelsson og Matthías Vilhjálmsson leystu miðvarðarstöðurnar prýðilega í fjarveru Gunnars Vatnhamar og Oliver Ekroth. Stígur Diljan Þórðarson átti svo góða innokomu inn á vinstri kantinn og Atli Þór Jónasson sýndi lipra takta í framlínunni þann tíma sem hann var inná.

Sveinn Gísli Þorkelsson skallaði ófáa bolta frá marki Víkings. Vísir/Anton Brink

Dómarar leiksins

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson og aðstoðarmenn hans Birkir Sigurðarson, Bryngeir Valdimarsson og Elías Ingi Árnason létu leikinn flæða vel og dæmdu ekki meira en þurfti. Hnökralaus frammistaða þeirra færir þeim átta í einkunn. 

Stemming og umgjörð

Það var nokkuð þétt setið í stúkunni í Víkinni í kvöld. Stuðningsmenn Víkings fengu mikið fyrir sinn snúð en þeir KA-menn sem komu alla leið frá Akureyri fóru hins vegar fýluferð.

Stígur Diljan Þórðarson sýndi skemmtilega takta. Vísir/Anton Brink
Atli Þór Jónasson var handfylli fyrir varnarmenn KA. Vísir/Anton Brink

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira