Menning

Arn­gunnur Ýr er bæjarlistamaður Hafnar­fjarðar 2025

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Arngunnur Ýr Gylfadóttir hlaut nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar á síðasta degir vetrar.
Arngunnur Ýr Gylfadóttir hlaut nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar á síðasta degir vetrar. REC media

Arngunnur Ýr Gylfadóttir myndlistarkona er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2025.

Hefð hefur skapast fyrir því að halda síðasta vetrardag hátíðlegan í Hafnarfirði með vali á bæjarlistamanni ársins og tók Arngunnur Ýr við nafnbótinni við hátíðlega athöfn fyrr í kvöld. 

„Ég er svo sannarlega stolt. Virkilega heiðruð, glöð og þakklát. Ég vil gefa af mér og finnst frábært að fá til baka,“ sagði Arngunnur Ýr um nafnbótina.

Arngunnur á vinnustofu sinni í Sléttuhlíð.Hafnarfjarðarbær

Arngunnur útskrifaðist með BFA-gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute árið 1986. Hún var síðar gestanemi við Gerrit Rietveld-akademíuna í Amsterdam, Hollandi, 1989 til 1990 en sneri aftur til Kaliforníu og lauk meistaragráðu í málaralist frá Mills-háskólanum í Oakland árið 1992. Hún hefur skapað sér feril til áratuga, haldið einka- og samsýningar hérlendis, í Bandaríkjunum og meginlandi Evróp og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.

„Ég hef þurft á myndlist að halda alveg síðan ég var eins árs segja foreldrar mínir. Það er satt. Ég var alltaf að teikna. Sterkasti krafturinn í mér er þessi þörf fyrir að tjá það sem ég upplifi. Þá er það yfirleitt á blaði, striga eða viðarplötu. Þannig hefur það verið alla mína tíð,“ sagði hún þegar hún hlaut nafnbótina.

Mun aldrei selja húsið í Hafnarfirði

„Aðdráttaraflið hefur togað mig út í heim en ég alltaf leitað heim,“ sagði Arngunnur við athöfnina. Hún hefur búið víða, á Hawaii, í Kaliforníu og í Nova Scotia en hún kom ein heim með Goðafossi þegar fjölskyldan varð eftir ytra. 

Hún segist hafa fundið sér samastað í Sléttuhlíð í Hafnarfirði en þar er hún einnig með vinnustofu.

„Við maðurinn minn búum hér og ég nýt þess að ganga þær mörgu dásamlegu gönguleiðir í nágrenninu. Hann fer í Suðurbæjarlaug og spjallar þar við fólkið. Ég er ekkert að fara og mun aldrei selja húsið mitt hér enda kann ég svo vel við bæjarbraginn,“ sagði Arngunnur á athöfninni.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, veitti Arngunni nafnbótina.REC media

Þau sem hlotið hafa nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar eru:

  • 2024 – Ebba Katrín Finnsdóttir, leikkona
  • 2023 – Pétur Gautur, myndlistamaður
  • 2022 – Björn Thoroddsen, gítarleikari
  • 2021 – Friðrik Dór Jónsson, tónlistarmaður
  • 2020 – Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari
  • 2019 – Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikstjóri
  • 2018 – Björgvin Halldórsson, tónlistarmaður
  • 2017 – Steingrímur Eyfjörð, myndlistarmaður
  • Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2015 til 2016
  • 2014 – Andrés Þór Gunnlaugsson, tónlistarmaður
  • Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2010 til 2013
  • 2009 – Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona
  • 2008 – Sigurður Sigurjónsson, leikari
  • 2007 – Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður
  • 2006 – Elín Ósk Óskarsdóttir, söngkona
  • 2005 – Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna), myndlistarmaður





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.