Innlent

Réðu niður­lögum sinu­elds við Húsa­fell

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mynd úr safni. Sinueldur í Heiðmörk.
Mynd úr safni. Sinueldur í Heiðmörk. Vísir/Vilhelm

Tilkynning barst slökkviliði Borgarfjarðar um sinueld við Húsafell um hádegið í dag. Búið var að ráða niðurlögum eldsins um þrjúleytið.

Eldurinn logaði í miklu skóglendi við Húsafell, þar sem mikið var um birki, víði og lyng. Varðstjóri segir að gróðurinn megi illa við svona löguðu, enda sé gróðurinn mjög þurr á köflum.

„Það var ekkert gott að komast að þessu, en þetta var á töluverðu svæði,“ segir Bjarni Þorsteinsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarnesi.

Svo hafi rigning mætt eins og eftir pöntun.

„Við fengum bara helliskúr ofan í þetta þegar við vorum að basla í þessu og þetta hjálpaði okkur gríðarlega mikið. Það gengur svona á með rigningarskúrum hér í Borgarfirðinum,“ segir hann.

Hann kveðst ekkert vita um upptök eldsins, en á svæðinu sé mjög vinsæl gönguleið.

„Það þekkist að fólk reyki þótt það sé á heilsubótargöngu. Það er svona það sem mann grunar af því þetta er vinsæl gönguleið,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×