Viðskipti innlent

Hagnaðist um tæpar sjö­tíu milljónir króna

Árni Sæberg skrifar
Árið 2024 var gjöfult fyrir Árna Pál.
Árið 2024 var gjöfult fyrir Árna Pál. Vísir/Daníel Thor

Kópbois ehf., félag í eigu Árna Páls Árnasonar, Herra Hnetusmjörs, hagnaðist um 66 milljónir króna á síðasta ári. Rekstrartekjur námu tæplega 150 milljónum króna.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá er eini tilgangur félagsins rekstur vegna sviðslista, sem engan skildi undra enda hefur Herra Hnetusmjör um árabil verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Miðað við ársreikning félagsins fyrir árið 2024 má áætla að sviðslistir hafi gefið vel í aðra hönd í fyrra, enda voru allar tekjur félagsins, upp á tæplega 146 milljónir króna, vegna aðalstarfsemi. 

Þar segir að rekstrarkostnaður, sem hafi nánast allur verið vegna skrifstofu- og annars rekstrarkostnaðar, hafi verið rúmlega 64 milljónir króna. Rekstrarhagnaður hafi því verið tæplega 82 milljónir króna og afkoman eftir skatta og gjöld 66 milljónir króna.

Til samanburðar nemur samanlögð afkoma félagsins fimm ár fyrir síðasta ár rétt rúmlega níu milljónum króna.

Heildareignir félagsins um áramót námu tæplega 88 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var tæplega 77 prósent. Arðsemi eigin fjár í fyrra nam 98 prósentum.


Tengdar fréttir

Herra Hnetusmjör og Sara keyptu draumahúsið

Tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, Herra Hnetusmjör, og unnusta hans Sara Linneth Castañeda, sérfræðingur í mannauðsmálum hjá 66°Norður, hafa fest kaup framtíðarheimili þeirra í Hvörfunum í Kópavogi. Sara greindi frá tímamótunum á samfélagsmiðlum á dögunum. 

Herra Hnetusmjör og Sara selja íbúðina

Tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, Herra Hnetusmjör, og unnusta hans Sara Linneth hafa sett íbúð sína við Digranesveg í Kópavogi á sölu. Þess má geta að parið bjó áður í annarri íbúð í sama húsi. Ásett verð er 84,9 milljónir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×